Almennt um heimilisofbeldi
- Afstaða gegn heimilisofbeldi
- Nov 19, 2022
- 2 min read
Heimilisofbeldi er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir að hálfu einhvers sem er honum nákominn, skyldur eða tengdur. Þolandi og gerandi þurfa hvorki að búa saman né vera gift til þess að ofbeldið flokkist sem heimilisofbeldi. Það getur verið mjög erfitt að skilgreina heimilisofbeldi, það er víðtækt hugtak sem hefur mismunandi merkingu fyrir fólki. Heimilisofbeldi byrjar venjulega sem einangrað ofbeldisatvik sem þróast oft í stöðugt ofbeldi. Heimili nýtur friðhelgi og innan veggja þess geta gerst hlutir sem fara algerlega fram hjá öðrum. Að átta sig á því að þú eða einhver annar sem þér þykir vænt um búi við slíkar aðstæður er mikið áfall. Mikilvægt er að hafa í huga að ef þér líður eins og brotið hafi verið á þér eða fólki í kringum þig er gott að leita aðstoðar hjá vinum, ættingjum, á heilsugæslunni eða hjá félagsþjónustunni í þínu sveitarfélagi. Líkamlegt ofbeldi er ekki eina gerð heimilisofbeldis. Það getur bæði verið andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt ofbeldi.
Andlegt ofbeldi gæti sést í formi orðaskipta eða í formi líkamstjáningar. Gerandinn afsakar sig oft með því að kenna þolendum sínum um. Andlegt ofbeldi er til dæmis þegar gerandinn öskrar, kallar þolanda ljótum nöfnum og áreitir, gerir lítið úr þolanda, einangrar þolanda frá vinum sínum og fjölskyldu og það endar oft með því að þolandi hefur engan til þess að leita til.
Líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi hvort sem líkamlegur skaði sést á þolandanum eða ekki. Líkamlegt ofbeldi er einnig þegar haldið er aftur af líkamlegum þörfum viðkomandi. Í líkamlegu ofbeldi er algengt að gerandinn beiti andlegu ofbeldi á þolandann í kjölfarið. Einnig hefur andlegt ofbeldi oft verið til staðar um tíma áður en gerandinn færir það í líkamlegt. Til dæmis heldur gerandinn þolandanum gíslingu, gerandinn kemur í veg fyrir næringu og drykkju og veitir þolandanum ýmsa alvarlega áverka.
Kynferðislegt ofbeldi á sér margar birtingar myndir. Kynferðislegt ofbeldi er skerðing á kynfrelsi einstaklings til dæmis þegar honum er þröngvað til einhverskonar athafnar sem hann vill ekki taka þátt í. Kynferðislegt ofbeldi getur verið óumbeðnar snertingar, kossar, harkalegar og ofbeldisfullar kynferðislegar athafnir án samþykkis, nauðgun eða tilraun til nauðgunar. Kynferðislegt ofbeldi í nánu sambandi getur verið ef einstaklingur selur maka sinn út í vændi eða krefst kynlífsathafna sem makinn hefur ekki samþykkt.
Fjárhagslegt ofbeldi er leið til þess að stjórna maka þínum í gegnum fjárhag. Dæmi um fjárhagslegt ofbeldi er þegar gerandinn bannar þolandanum að vinna, skammta pening o.s.fr.
Stafrænt ofbeldi er þegar ofbeldi er beitt með notkun tækni til dæmis með því að senda skilaboð gegnum samfélagsmiðla, síma eða tölvupóst. Dæmi má nefna þegar gerandinn skráir sig inn á samfélagsmiðla í nafni þolandans, stjórnar hverjir vinir hans eru á samfélagsmiðlum, hótar að tala illa um hann á netinu eða dreifir sögum í gegnum síma eða samskiptaforrit.
Comments